Á öðru árinu mínu í háskólanámi var stelpan mín orðin um eins árs. Mér gekk brösuglega að uppfylla námskröfur og var fullur samviskubits yfir því að vera ekki enn fyllilega kominn með tökin á því að eiga barn. Ég nálgaðist einn kennarann að lokum og reyndi af — að mér þá fannst — einstakri og margendurtekinni sjálfsvorkunn að kría út svolitla samúð.
Kennarinn brást ekki við á neinn þann hátt sem ég bjóst við. Hann setti upp bros sem lýsti skilningi og rifjaði síðan upp sína eigin reynslu. Hann hafði eignast barn um það leyti sem fréttir bárust af voðaverkum í Kambódíu. Stríðsfangar voru pyntaðir á hryllilegan hátt og þegar því var lýst hvernig sumir voru neyddir til vöku sólarhringum saman fannst honum að hann gæti skilið — þótt ekki væri nema að örlitlu leyti — þær þjáningar sem fangarnir gengu gegnum. Ég kom í leit að samúð en fann samkennd. Þessi viðurkenning á mínum raunum var mér meira virði en flest sem fólk fann upp á að segja mér um þetta leyti.
![]() |
Barn á æviskeiði sem einkennist meðal annars af því að kunna ekki að segja „takk“. Mynd sótt af: Infant - Wikipedia, the free encyclopedia |
Ef dóttir mín grefur þessa grein upp seinna vil ég ekki að hún láti hvarfla að sér að hún hafi reynst mér byrði eða ég beri til hennar nokkra kergju. Ég vil ekki fyrir nokkurn mun veikja vissu hennar um að vera kærkomin í heiminn og í mínu lífi en tæplega gerir það henni hærra undir höfði að segja bara: „Þetta var svo sem ekkert mál.“
Þegar vandinn er viðkvæmur er oft þögnin skeinuhættust. Tjáum okkur og tökumst á við erfiðleikana með reisn.