Wednesday, September 18, 2013

Svífandi á rauðglóandi skýi

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifaði ágætan pistil, sem birtist í dag á vef Vísis. (Pistilinn má lesa með því að smella hér.) Þegar ég las hann varð mér hugsað til atviks í eigin lífi.

Á öðru árinu mínu í háskólanámi var stelpan mín orðin um eins árs. Mér gekk brösuglega að uppfylla námskröfur og var fullur samviskubits yfir því að vera ekki enn fyllilega kominn með tökin á því að eiga barn. Ég nálgaðist einn kennarann að lokum og reyndi af — að mér þá fannst — einstakri og margendurtekinni sjálfsvorkunn að kría út svolitla samúð.

Kennarinn brást ekki við á neinn þann hátt sem ég bjóst við. Hann setti upp bros sem lýsti skilningi og rifjaði síðan upp sína eigin reynslu. Hann hafði eignast barn um það leyti sem fréttir bárust af voðaverkum í Kambódíu. Stríðsfangar voru pyntaðir á hryllilegan hátt og þegar því var lýst hvernig sumir voru neyddir til vöku sólarhringum saman fannst honum að hann gæti skilið — þótt ekki væri nema að örlitlu leyti — þær þjáningar sem fangarnir gengu gegnum. Ég kom í leit að samúð en fann samkennd. Þessi viðurkenning á mínum raunum var mér meira virði en flest sem fólk fann upp á að segja mér um þetta leyti.

Barn á æviskeiði sem einkennist meðal annars af því að kunna ekki að segja „takk“.
Mynd sótt af: Infant - Wikipedia, the free encyclopedia 
Dóttir mín er gersemi en að veita henni þá umhyggju og ást sem ég vil hefur krafist meira af mér en ég hafði nokkru sinni ímyndað mér og oft er erfiðara að koma auga á tilgang og umbun en auðvelt er að viðurkenna. (Sérstaklega þegar svipbrigðin eru bara hlutlaust og hágrátur.) Það þrátt fyrir allt lán sem í því felst að eiga heilbrigt barn og stuðningsríka stórfjölskyldu.

Ef dóttir mín grefur þessa grein upp seinna vil ég ekki að hún láti hvarfla að sér að hún hafi reynst mér byrði eða ég beri til hennar nokkra kergju. Ég vil ekki fyrir nokkurn mun veikja vissu hennar um að vera kærkomin í heiminn og í mínu lífi en tæplega gerir það henni hærra undir höfði að segja bara: „Þetta var svo sem ekkert mál.“

Þegar vandinn er viðkvæmur er oft þögnin skeinuhættust. Tjáum okkur og tökumst á við erfiðleikana með reisn.

Monday, August 26, 2013

Hvunndagssadismi í kaffipásunni

Ég hef hingað til notað þetta blogg fyrir skrif um stærðfræði, raunvísindi og tengt efni. Ég ætla að breyta til.

Í sumar sat ég að snæðingi á kaffistofu starfsmanna þar sem ég hafði sumarvinnu. Einn vinnufélaganna var að deila með okkur hinum því sem hann hafði gert um helgina, sem var það helst að vinur hans hafði fengið að þola hina alræmdu steggjun.

Við rólegan hádegisverðinn nutum við því sagna af góðlátlegu mannráni og léttum pyntingum. Ég flissaði meðan stelpurnar settu upp grettur en hugsaði um leið að ég væri feginn að tilheyra ekki náið þeim vinskap sem þar var lýst — en ekki vildi ég drepa niður gamanið.

Líklega var viðkomandi stórkostlega skemmt og vináttan stórstyrkt. Sjálfsagt er nóg af masókistum í heiminum og ekki dæmi ég fólk fyrir að vilja annað en ég. Og tæplega hef ég gaman af því að pína aðra en eins og sögumaður lét falla, þá fær maður ekki oft tækifæri til þess að vera vondur við vini sína.

Nei, í alvöru.
Maður fær ekki oft tækifæri til að vera vondur við vini sína.
Ég skoða setninguna aftur og aftur en skil hana ekki alveg. Hef ég mistúlkað grunngildi mannlegra samvista? Á ég að vilja vera vondur við vini mína. (Kannski bara rétt þegar færi gefst?)

Ef ég tryði því beinlínis að þessi maður væri sérstaklega vondur eða siðlaus hefði ég ekki meiriháttar áhyggjur. Ég hef áhyggjur því samtalið var ekki ótækt — fremur í takt við menninguna.

Og nú nokkrum vikum síðar finn ég sérstaka þörf til að skrifa þetta því ég las þessa grein á mamamia.com.au um nauðgunarlagið Blurred Lines. Og í þessari grein um nauðgunarlagið Blurred Lines er haft eftir söngvaranum og lagahöfundinum Robin Thicke:
People say, “Hey, do you think this is degrading to women?” I’m like, “Of course it is. What a pleasure it is to degrade a woman. I’ve never gotten to do that before. I’ve always respected women.”
Og ég spyr mig ekki hvers konar manneskja segir svona. Ég spyr mig hvers konar menning býður upp á að þessi orð séu sögð.