Monday, August 26, 2013

Hvunndagssadismi í kaffipásunni

Ég hef hingað til notað þetta blogg fyrir skrif um stærðfræði, raunvísindi og tengt efni. Ég ætla að breyta til.

Í sumar sat ég að snæðingi á kaffistofu starfsmanna þar sem ég hafði sumarvinnu. Einn vinnufélaganna var að deila með okkur hinum því sem hann hafði gert um helgina, sem var það helst að vinur hans hafði fengið að þola hina alræmdu steggjun.

Við rólegan hádegisverðinn nutum við því sagna af góðlátlegu mannráni og léttum pyntingum. Ég flissaði meðan stelpurnar settu upp grettur en hugsaði um leið að ég væri feginn að tilheyra ekki náið þeim vinskap sem þar var lýst — en ekki vildi ég drepa niður gamanið.

Líklega var viðkomandi stórkostlega skemmt og vináttan stórstyrkt. Sjálfsagt er nóg af masókistum í heiminum og ekki dæmi ég fólk fyrir að vilja annað en ég. Og tæplega hef ég gaman af því að pína aðra en eins og sögumaður lét falla, þá fær maður ekki oft tækifæri til þess að vera vondur við vini sína.

Nei, í alvöru.
Maður fær ekki oft tækifæri til að vera vondur við vini sína.
Ég skoða setninguna aftur og aftur en skil hana ekki alveg. Hef ég mistúlkað grunngildi mannlegra samvista? Á ég að vilja vera vondur við vini mína. (Kannski bara rétt þegar færi gefst?)

Ef ég tryði því beinlínis að þessi maður væri sérstaklega vondur eða siðlaus hefði ég ekki meiriháttar áhyggjur. Ég hef áhyggjur því samtalið var ekki ótækt — fremur í takt við menninguna.

Og nú nokkrum vikum síðar finn ég sérstaka þörf til að skrifa þetta því ég las þessa grein á mamamia.com.au um nauðgunarlagið Blurred Lines. Og í þessari grein um nauðgunarlagið Blurred Lines er haft eftir söngvaranum og lagahöfundinum Robin Thicke:
People say, “Hey, do you think this is degrading to women?” I’m like, “Of course it is. What a pleasure it is to degrade a woman. I’ve never gotten to do that before. I’ve always respected women.”
Og ég spyr mig ekki hvers konar manneskja segir svona. Ég spyr mig hvers konar menning býður upp á að þessi orð séu sögð.